Ítalía
Lýðveldið Ítalía | |
Repubblica italiana | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Il Canto degli Italiani | |
Höfuðborg | Róm |
Opinbert tungumál | Ítalska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Sergio Mattarella |
Forsætisráðherra | Giorgia Meloni |
Stofnun | |
• Sameining | 17. mars 1861 |
• Lýðveldisstofnun | 1. janúar 1948 |
Evrópusambandsaðild | 25. mars 1957 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
71. sæti 301.340 km² 1,24 |
Mannfjöldi • Samtals (2022) • Þéttleiki byggðar |
23. sæti 58.853.482 201,3/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2021 |
• Samtals | 2.106 millj. dala (13. sæti) |
• Á mann | 43.376 dalir (29. sæti) |
VÞL (2019) | 0.892 (29. sæti) |
Gjaldmiðill | Evra (€) |
Tímabelti | UTC+1 (+2 á sumrin) |
Þjóðarlén | .it |
Landsnúmer | +39 |
Ítalía (ítalska: Italia), opinbert heiti Ítalska lýðveldið (Repubblica Italiana), er land í Suður-Evrópu. Landið liggur aðallega á Appenínaskaga sem gengur til suðausturs út í Miðjarðarhafið og minnir í lögun dálítið á stígvél. Að norðan nær landið allt upp í Alpafjöll. Lönd sem liggja að Ítalíu eru Frakkland, Sviss, Austurríki og Slóvenía. Einnig umlykur Ítalía tvö sjálfstæð ríki, San Marínó (sem er nálægt austurströndinni og Rímíní) og Vatíkanið eða Páfagarð, sem er hluti af Róm. Campione d'Italia er útlenda Ítalíu í Sviss. Róm er höfuðborgin og stærsta borg landsins. Íbúar Ítalíu eru um 58 milljónir og landið er þriðja fjölmennasta aðildarríki Evrópusambandsins.
Mikill fjöldi þjóða og menningarsamfélaga hafa staðið á Ítalíu frá fornu fari. Ýmsar fornþjóðir bjuggu þar sem í dag er Ítalía, og einn hópur þeirra þróaði ítalísk mál. Frá upphafi klassískrar fornaldar stofnuðu Föníkumenn og Grikkir nýlendur við strendur og á eyjum í kringum Ítalíu.[1] Forn-Grikkir stofnuðu það sam kallað var Magna Graecia á Suður-Ítalíu. Á sama tíma stóðu ríki Etrúra og Kelta á Mið- og Norður-Ítalíu. Ítalískur ættbálkur sem nefndist Latínar lögðu smám saman undir sig stærra landsvæði um miðjan skagann í kringum borgina Róm. Rómaveldi lagði síðan undir sig allan skagann og eyjarnar og stóran hluta Evrópu, Mið-Austurlanda og Norður-Afríku næstu aldirnar. Rómaveldi kom á Rómarfriði og breiddi út Rómarrétt, rómverskar hefðir, tækni, trúarbrögð, byggingarlist, myndlist og bókmenntir.[2][3]
Rómaveldi klofnaði í Vestrómverska keisaradæmið, þar sem latína var töluð, og Austrómverska keisaradæmið, þar sem gríska var töluð. Vestrómverska keisaradæmið féll vegna innrása þjóða úr norðri á Þjóðflutningatímabilinu á ármiðöldum. Á síðmiðöldum blómstruðu borgríki um alla Ítalíu vegna fjármálastarfsemi, verslunar og sjóflutninga á Miðjarðarhafi.[4] Þessi litlu ríki auðguðust sem milliliðir í verslun við Asíu og nutu oft mikils frjálsræðis, þótt þau heyrðu að nafninu til undir stærri ríki.[5] Endurreisnin hófst á Ítalíu og breiddist þaðan til annarra hluta Evrópu. Á endurreisnartímanum fór áhugi vaxandi á húmanisma, landkönnun, raunvísindum og myndlist. Á þeim tíma blómstraði ítölsk menning, en efnahagslegt mikilvægi svæðisins minnkaði þegar nýjar siglingaleiðir til Asíu voru uppgötvaðar.[6] Ítalíustríðin á 15. og 16. öld leiddu til þess að Ítalía skiptist í mörg örríki sem heyrðu undir erlendar konungsættir og nutu minna sjálfstæðis en áður.
Í kjölfar frönsku byltingarinnar og Napóleonsstyrjaldanna í upphafi 19. aldar hófst barátta fyrir sameiningu Ítalíu í eitt þjóðríki. Eftir sjálfstæðisbaráttu var konungsríkið Ítalía formlega stofnað árið 1861.[7] Iðnvæðing Norður-Ítalíu hófst í stórum stíl eftir sameininguna og undir lok aldarinnar gerðist Ítalía nýlenduveldi.[8] Norður-Ítalía nútímavæddist hratt meðan Suður-Ítalía glímdi við fátækt og vanþróaðan landbúnað á stórjarðeignum. Á þessum tíma fluttust stórir hópar Ítala til Ameríku í leit að tækifærum.[9] Ítalía var í liði með bandamönnum í fyrri heimsstyrjöld, en vonbrigði með niðurstöður stríðsins og ótti við byltingu verkafólks leiddu til valdatöku fasista árið 1922. Ítalía gerðist síðan bandamaður Þýskalands nasista og eitt af öxulveldunum í síðari heimsstyrjöld. Eftir ósigur fasista og hernám Ítalíu var konungdæmið afnumið og lýðveldi stofnað. Eftir erfiðleika í kjölfar stríðsins hófst ítalska efnahagsundrið með miklum vexti iðnframleiðslu á 6. áratug 20. aldar.[10]
Ítalía er háþróað iðnríki sem er með 9. stærsta hagkerfi heims að nafnvirði, áttunda mesta þjóðarauð heims og þriðja stærsta gullforða heims. Landið situr hátt á listum yfir lönd eftir lífslíkum, lífsgæðum,[11] gæðum heilbrigðisþjónustu[12] og menntun. Landið er stórveldi í sínum heimshluta[13][14] og hefur mikil áhrif á heimsvísu[15][16] í efnahagslegu, hernaðarlegu, menningarlegu og stjórnmálalegu tilliti. Ítalía er einn af stofnaðilum Evrópusambandsins og fjölda annarra alþjóðastofnana, eins og Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins, OECD, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, G7 og G20, Miðjarðarhafsbandalaginu, Latínubandalaginu, Evrópuráðinu, Schengen-bandalaginu og fleirum. Ítölsk vísindi og menning, tíska og listir, matargerð og íþróttir, lögfræði, fjármálastarfsemi og verslun, hafa lengi haft mikil áhrif um allan heim.[17] Ítalía er fimmta mest heimsótta ferðamannaland heims og á flesta staði á Heimsminjaskrá UNESCO (58).
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Á Ítalíu hafa komið upp mörg menningarsamfélög frá því í fornöld en hugmyndin um Ítalíu sem ríki varð þó ekki til fyrr en með sameiningu Ítalíu (risorgimento) um miðja 19. öld. Þrátt fyrir það er alvanalegt, þegar talað er um sögu Ítalíu, að fjalla um hluti eins og sögu Stór-Grikklands (Magna Graecia), sögu Rómaveldis, miðaldir, þegar Býsans, Frankaveldi og fleiri tókust á um yfirráð á skaganum, sögu borgríkjanna á Norður-Ítalíu og ítölsku endurreisnina.
Sameining Ítalíu
[breyta | breyta frumkóða]Nútímaríkið Ítalía varð til 17. mars 1861 þegar meirihluti borgríkjanna á Ítalíuskaganum sameinaðist í eitt konungsríki undir stjórn konungs af Savoja-ættinni, Viktors Emmanúels 2., eftir yfir þrjátíu ára baráttu. Fyrst um sinn stóðu Róm og nærliggjandi héruð utan við ríkið þar sem þau töldust hluti Páfaríkisins (Patrimonium Petri) en 20. september 1870 var Rómaborg hertekin eftir stutt átök og gerð að höfuðborg. Afleiðing þessa varð sú að páfinn neitaði að viðurkenna Ítalíu sem ríki fram að Lateransamningunum 1929.
Fyrri heimsstyrjöld og fasisminn
[breyta | breyta frumkóða]Ítalía barðist með bandamönnum gegn Þjóðverjum og Austurríkismönnum í fyrri heimsstyrjöldinni. Samkvæmt Versalasamningnum fengu Ítalir þó ekki landsvæðið Fiume (Rijeka), sem tilheyrir Króatíu í dag, sem þeir gerðu tilkall til. Vonbrigði og erfiðleikar millistríðsáranna, auk ótta við mögulega byltingu bolsévika, leiddu til fæðingar fasismans og valdatöku Benito Mussolinis eftir Rómargönguna 1922. Mussolini varð einræðisherra 1925 og ríkti sem slíkur til 1943. Á tímum fasismans stundaði Ítalía árásargjarna heimsvaldastefnu gagnvart Albaníu, Líbýu, Eþíópíu og Sómalíu og studdi falangista í Spænsku borgarastyrjöldinni. Ítalía gerði bandalag við Þýskaland Hitlers (Stálbandalagið) og varð eitt af Öxulveldunum í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir fullnaðarsigur bandamanna í styrjöldinni var ný stjórnarskrá samin og lýst yfir stofnun lýðveldis árið 1948.
Lýðveldisstofnunin
[breyta | breyta frumkóða]Margir stjórnmálamenn sem höfðu haft embætti í fasistastjórinni gengu í endurnýjun lífdaga í nýstofnuðum miðjuflokki, Kristilega demókrataflokknum sem fór síðan óslitið með völd til 1993.
Ítalía varð félagi í NATO árið 1949 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum 1955. Mikill vöxtur var í efnahagslífinu frá 1958 til 1963 og Ítalía var ekki lengur með fátækustu þjóðum Evrópu (Ítalska efnahagsundrið). Á 8. áratugnum bar mikið á misskiptingu auðs og hryðjuverkum af hálfu vinstri- og hægrisinnaðra öfgahópa (Blýárin). Einnig bar mikið á misvægi milli Suður-Ítalíu, þar sem efnahagslífið var bundið við landbúnað, stöðnun ríkti og skipulögð glæpastarfsemi blómstraði, og hinnar iðnvæddu og ríku Norður-Ítalíu, þar sem efnahagslífið byggði á framleiðsluiðnaði.
„Annað lýðveldið“
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1992–93 fór fram víðtæk rannsókn á spillingu í ítölskum stjórnmálum (Mani pulite) sem batt endi á valdatíma Kristilegra demókrata. Þetta gerðist á sama tíma og Ítalir tókust á við efnahagslegar og stjórnarfarslegar umbætur sem voru undanfari þátttöku í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Spillingarrannsóknin skapaði stjórnmálakreppu sem ruddi brautina fyrir stjórnmálaferil fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvios Berlusconis, og myndun nokkurs konar „tvíflokkakerfis“ þar sem tvö stór kosningabandalög, hvort um sig myndað úr einum stórum miðjuflokki og smærri flokkum á vinstri og hægri væng stjórnmálanna, takast á í kosningum.
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Ítalía er að stærstum hluta langur skagi (Appennínaskagi) sem gengur langt út í Miðjarðarhafið, auk tveggja stórra eyja; Sikileyjar og Sardiníu. Skaginn og eyjarnar afmarka hafsvæði eins og Adríahaf austan við skagann, Jónahaf í suðaustri, Tyrrenahaf í vestri og Lígúríuhaf í norðvestri.
Norðurlandamæri Ítalíu eru í Alpafjöllunum, en frá þeim liggja Appennínafjöllin eftir endilöngum skaganum. Hæsti tindur Ítalíu er Mont Blanc (4.810 m) en hæsti tindur Appennínafjallanna er Gran Sasso (2.912 m). Ítölsku vötnin eru stór stöðuvötn við rætur Alpana sem ísaldarjökullinn skapaði.
Stærsta samfellda undirlendi Ítalíu er Pódalurinn þar sem áin Pó rennur ásamt þverám sínum úr Alpafjöllunum, Appennínafjöllunum og Dólómítunum 652 km leið út í Adríahaf. Önnur þekkt fljót á Ítalíu eru Arnó, Adige og Tíberfljót.
Á Ítalíu eru nokkur virkustu eldfjöll Evrópu eins og Etna, Vesúvíus og Strombólí. Jarðskjálftar eru ekki óalgengir og þó nokkur jarðhiti er á mörgum stöðum.
Þjóðgarðar á Ítalíu eru 25 talsins.
Dýralíf
[breyta | breyta frumkóða]Á Ítalíu finnast yfir 100 tegundir spendýra (þar með talin sjávarspendýr). Af einlendum tegundum eru tvær tegundir snjáldurmúsa (Soricidae), ein tegund leðurblaka (Chiroptera) og ein tegund stúfmúsa (Arvicolinae, e. vole).
Korsíkukrónhjörtur (Cervus elaphus corsicanus) finnst á Sardiníu, Í Appennínafjöllum finnast villisvín (Sus scrofa) og fjallagemsan (Rupicapra pyrenaica ornata), í ítölsku Ölpunum finnst alpasteingeit í allt að 4.600 metra hæð. Rándýr eru meðal annars gaupa (lynx lynx), úlfur (canis lupus) og skógarbjörn (ursus arctos).
Yfir 500 fuglar verpa á Ítalíu eða eru flækingar. Storkar, spætur, finkur og gaukar eru meðal algengra tegunda. rósastari (Sturnus roseus) er algengur á ökrum. Ránfuglar eins og gammar og ernir eru á staðbundnu svæði í landinu: T.d. Bonelli-örninn (aquila fasciata) og egypskur hrægammur (neophron percnopterus). [18]
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Ítalía er lýðveldi með fulltrúalýðræði og þingræði eftir að ákveðið var að leggja ítalska konungdæmið niður í þjóðaratkvæðagreiðslu 2. júní 1946. Stjórnarskrá Ítalíu sem kveður á um stjórnskipan lýðveldisins gekk í gildi 1. janúar 1948.
Forseti Ítalíu er þjóðhöfðingi landsins og er kjörinn af sameinuðu þingi til sjö ára í senn. Forsetinn má ekki sitja lengur en eitt kjörtímabil og ekki verða forseti í annað sinn. Forsetinn er einingartákn þjóðarinnar og á að tryggja að stjórnarskrá sé fylgt þegar hann undirritar lög frá þinginu. Forsetanum ber einnig að bera undir þingið lagafrumvörp sem fengið hafa tiltekinn fjölda undirskrifta almennings, en með þeim hætti geta almennir borgarar knúið fram að lagafrumvörp séu tekin fyrir á þinginu.
Ítalska þingið skiptist í tvær deildir: fulltrúadeild, þar sem 630 fulltrúar sitja og öldungadeild þar sem sitja 315 kjörnir fulltrúar auk öldungadeildarþingmanna sem skipaðir eru ævilangt. Kjördæmin eru 26 talsins, og skipting þeirra er nokkurn veginn eftir héruðum. Langbarðaland greinist þó í þrjú kjördæmi, Fjallaland, Venetó og Latíum og Kampanía og Sikiley skiptast í tvö. Þessi héruð kjósa 618 þingmenn til fulltrúadeildarinnar, 12 þingmenn til viðbótar kjósa ítalskir ríkisborgarar sem búa erlendis. Til öldungadeildarinnar er kosið eftir sambærilegum kjördæmum, þar sem sitja 315 kjörnir fulltrúar þar af sex fyrir ítalska ríkisborgara sem búa erlendis. Auk þeirra sitja öldungadeildarþingmenn sem forsetinn skipar til lífstíðar og geta þeir verið fimm talsins auk fyrrum forseta lýðveldisins. Hvert löggjafarþing getur setið hámark fimm ár en eftir það er boðað til þingkosninga.
Ríkisstjórn Ítalíu fer með framkvæmdavaldið og skiptist í þrennt: forsætisráðherra Ítalíu, ráðherra og ríkisstjórnina sjálfa sem er fundur eða ráð fyrrnefndra stofnana.
Dómsvaldið er á mörgum dómstigum en æðst þeirra er stjórnlagadómstóll Ítalíu sem dæmir um það hvort lög standist stjórnarskrána. Æðstaráð dómsvaldsins er æðsta vald í málefnum dómsvaldsins og sér um skipan dómara. Ráðið skipa að 1/3 dómarar sem þingið tilnefnir, en að 2/3 dómarar stofnanir dómsvaldsins kjósa. Þannig er reynt að tryggja sem mest sjálfstæði dómsvaldsins, bæði gagnvart framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu.
Stjórnsýslueiningar
[breyta | breyta frumkóða]Ítalía skiptist í tuttugu héruð (regioni) sem hvert hefur sinn höfuðstað. Fimm héraðanna (Friúlí, Sardinía, Sikiley, Trentínó og Ágústudalur) hafa takmarkaða sjálfsstjórn sökum menningarlegrar sérstöðu. Héruðin skiptast í nokkrar sýslur (province) sem aftur skiptast í mörg sveitarfélög (comuni) sem eru 7.904 talsins.[19]
Héruð
[breyta | breyta frumkóða]Efnahagslíf
[breyta | breyta frumkóða]Ítalía er eitt af sjö helstu iðnríkjum heims og níunda stærsta hagkerfi heims á eftir Bandaríkjunum, Kína, Japan, Þýskalandi, Indlandi, Bretlandi, Frakklandi og Kanada. Samkvæmt Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er Ítalía sjötti stærsti útflytjandi heims á framleiðsluvörum.
Langstærstur hluti fyrirtækja á Ítalíu eru lítil eða mjög lítil fyrirtæki. Ítölsk stórfyrirtæki eru yfirleitt í eigu fjölskyldna stofnendanna eða erlendra fjárfesta. Hugmyndin um almenningshlutafélag í dreifðri eign hefur ekki notið fylgis á Ítalíu og ítalskir sparifjáreigendur þykja yfirleitt íhaldssamir.
Sterk skil eru á milli Norður- og Suður-Ítalíu hvað efnahagslíf varðar. Mestöll iðnvæðing á Ítalíu frá því á 19. öld fór fram í norðurhlutanum og þar eru langflest framleiðslufyrirtækin með starfsemi sína. Mílanó er þannig réttnefnd efnahagsleg höfuðborg Ítalíu og þar er ítalska verðbréfaþingið. Efnahagslíf suðurhlutans byggðist aftur á móti á landbúnaði og þar er enn í dag meira atvinnuleysi og vanþróaðra efnahagslíf þrátt fyrir margar tilraunir til að efla atvinnulíf með ýmsum aðgerðum, meðal annars með ríkisreknum iðnfyrirtækjum. Skilin á milli hins ríka norðurhluta og vanþróaða suðurhluta hafa þó haft tilhneigingu til þess að færast suður á bóginn með árunum.
Auk framleiðsluiðnaðar er ferðaþjónusta mikilvæg atvinnugrein á Ítalíu sem er í fjórða sæti (á eftir Frakklandi, Spáni og Bandaríkjunum) hvað varðar fjölda heimsókna erlendra ferðamanna á ári (yfir 39 milljónir).
Ítalía flytur inn langstærstan hluta alls hráefnis og 75% þeirrar orku sem nýtt eru í landinu.
Frá upphafi 10. áratugar 20. aldar hefur ítalska ríkið reynt að halda jafnvægi í ríkisfjármálum í tengslum við aðildina að Evrópubandalaginu og með því hefur tekist að halda verðbólgu og vöxtum niðri. Ítalíu tókst þannig að uppfylla öll skilyrðin fyrir aðild að myntbandalagi Evrópu og tók upp evru í stað lírunnar árið 1999. Ýmis vandamál plaga þó ríkisfjármálin, svo sem mikil og landlæg skattsvik og skuldir ríkisins sem námu 107,4% af landsframleiðslu árið 2006.
Íbúar
[breyta | breyta frumkóða]Íbúar Ítalíu eru um 60 milljónir og landið er það þriðja fjölmennasta innan Evrópusambandsins, á eftir Þýskalandi og Frakklandi. Íbúar á ferkílómetra eru 196,17, sem er yfir meðaltali Evrópusambandsins.[20] Dreifing íbúa er mjög ójöfn. Þéttbýlustu svæðin eru í Pódalnum (þar sem um helmingur mannfjöldans býr) og á stórborgarsvæðum í kringum Róm og Napólí. Stór svæði í Alpafjöllum, í hálendi í Appennínafjöllum, á hásléttum Basilíkata og eyjunum Sardiníu og Sikiley, eru mjög dreifbýl eða óbyggð.
Seint á 19. öld og í byrjun 20. aldar fluttist fólk í stórum stíl frá Ítalíu til annarra landa, sérstaklega til Ameríku (Bandaríkjanna, Brasilíu, Argentínu og Úrúgvæ) og Mið- og Norður-Evrópu (sérstaklega til Þýskalands). Áætlað er að 750.000 manns hafi flust þaðan árlega frá 1898 til 1914.[21] Talið er að um 60 milljónir manna af ítölskum uppruna búi utan Ítalíu, en um 4,2 milljónir með ítalskan ríkisborgararétt búa erlendis.[22] Á 20. öld urðu síðan miklir fólksflutningar innanlands frá suðri til norðurs. Þetta stafaði af hröðum vexti iðnaðar á Norður-Ítalíu á tímum ítalska efnahagsundursins eftir miðja 20. öld. Til 1970 var fæðingartíðni fremur há á Ítalíu, en hnignaði hratt eftir það og er nú aðeins 1,34 barn að meðaltali á hverja konu. Þjóðin hefur elst hratt síðustu áratugi. Lífslíkur eru 85,1 ár hjá konum og 80,6 ár hjá körlum. Árið 2010 voru einn af fimm Ítölum yfir 65 ára aldri og miðaldur var 46,5 ár, sem gerir Ítala að fimmtu elstu þjóð heims.[23] Fólksfjöldi og fæðingartíðni á Ítalíu væru enn lægri en raunin er ef ekki væri fyrir innflytjendur.
Aðflutningur fólks erlendis frá hefur farið vaxandi frá 10. áratug 20. aldar. Í lok árs 2020 voru íbúar af erlendum uppruna rúmlega 5 milljónir, eða 8,46% íbúa.[24] Stærstu hóparnir koma frá Rúmeníu (1,1 milljón), Albaníu (um 400 þúsund) og Marokkó (um 400 þúsund).[25] Að auki búa um 400.000 erlendir ríkisborgarar í landinu tímabundið, samkvæmt skýrslu frá 2015.[26]
Tungumál
[breyta | breyta frumkóða]Opinbert tungumál Ítalíu er ítalska, eins og kemur fram í lögum nr. 482/1999[27] og stöðulögum Trentínó-Suður-Týról,[28] sem eru hluti af stjórnskipunarrétti í landinu. Um allan heim er talið að 64 milljónir eigi ítölsku að móðurmáli[29][30][31] og 21 milljón í viðbót talar ítölsku sem annað mál.[32] Ítalska er oft töluð með staðbundnum framburði, sem er ekki það sama og ítalskar mállýskur eða minnihlutamál.[33][34] Með stofnun skólakerfis á landsvísu dró úr breytileika tungumála sem töluð eru í landinu á 20. öld. Stöðlun ítölskunnar jókst enn frekar á 6. og 7. áratugnum þegar ríkisfjölmiðlar tóku upp staðlaðan framburð.
Söguleg minnihlutamál sem eru formlega viðurkennd eru albanska, katalónska, þýska, gríska, slóvenska, króatíska, franska, próvensalska, fríúlíska, ladínska, okkitíska og sardiníska.[27] Fjögur þessara mála eru auk þess opinber mál, til hliðar við ítölsku, í tilteknum héruðum: franska í Ágústudal,[35] þýska í Suður-Týról, ladínska í sumum hlutum sömu héraða og hluta Trentínó,[36] og slóvenska í Tríeste, Gorizia og Údíne.[37] Mörg önnur tungumál eru töluð í landinu en njóta ekki formlegrar viðurkenningar.[38] Líkt og Frakkland hefur Ítalía undirritað Evrópusáttmála um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa, en ekki fullgilt hann.[39]
Vegna aðflutnings fólks frá öðrum löndum eru stórir hópar búsettir á Ítalíu sem eiga sér önnur móðurmál en ítölsku eða staðbundnu málin. Samkvæmt Tölfræðistofnun Ítalíu er rúmenska algengasta móðurmálið meðal fólks af erlendum uppruna á Ítalíu: Nær 800.000 manns tala rúmensku sem fyrsta mál (21,9% af erlendum íbúum 6 ára og eldri). Önnur algeng fyrstu mál eru arabíska (töluð af um 475.000 manns eða 13,1% af erlendum íbúum), albanska (380.000 íbúar) og spænska (255.000 íbúar).[40]
Trúarbrögð
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2017 sögðust 74,4% Ítala aðhyllast kaþólska trú.[41] Árið 1985 var hætt að skilgreina kaþólska trú sem ríkistrú á Ítalíu.[42] Ítalar eru fimmta fjölmennasta kaþólska þjóð heims og fjölmennasta kaþólska þjóð Evrópu.[43]
Páfastóll, biskupsdæmi Rómar, er stjórnsýslumiðstöð kaþólsku kirkjunnar. Það er viðurkennt af öðrum ríkjum sem fullvalda aðili að alþjóðarétti og þjóðhöfðingi þess er páfinn, sem auk þess er biskup Rómar.[44] Vatíkanið er borgríki innan landamæra Ítalíu, en Páfadómur eða Páfastóll vísar til stjórnsýsluumdæmis páfa.[45] Vatíkanið var stofnað árið 1929 þegar samningar náðust milli Ítalíu og páfa.
Árið 2011 var talið að aðrir kristnir söfnuðir á Ítalíu teldu 1,5 milljón í rétttrúnaðarkirkjunni (2,5% íbúa[46]), 500.000 í hvítasunnukirkjum og evangelískum kirkjum (þar af 400.000 meðlimir í samtökunum Assemblies of God), 251.192 vottar Jehóva,[47] 30.000 valdensar,[48] 25.000 sjöunda dags aðventistar, 26.925 í kirkju hinna síðari daga heilögu, 15.000 baptistar (auk 5.000 fríbaptista), 7.000 lúterstrúar og 4.000 meþódistar.[49]
Ein af elstu minnihlutatrúarbrögðum Ítalíu er gyðingdómur. Ítalskir gyðingar hafa búið í landinu frá dögum Rómaveldis. Ítalía hefur í gegnum tíðina oft tekið við gyðingum sem voru hraktir frá öðrum löndum, sérstaklega Spáni. Um 20% ítalskra gyðinga týndu lífinu í Helförinni.[50] Vegna þessa og brottflutnings eftir síðari heimsstyrjöld eru gyðingar á Ítalíu nú aðeins um 28.400.[51]
Mikill aðflutningur fólks á síðustu tveimur áratugum hefur leitt til aukningar í trúfélögum sem ekki eru kristin. Á Ítalíu búa 120.000 hindúar frá Suður-Asíu,[52] 70.000 síkar með 22 síkahof um allt land.[53]
Til að standa vörð um trúfrelsi veitir ítalska ríkið 0,8% af tekjuskatti til viðurkenndra trúfélaga. Á skattframtalinu er hægt að velja að framlagið renni til kristinna trúfélaga, gyðinga, búddista og hindúa. Íslam stendur utan við þetta þar sem ekkert trúfélag múslima hefur gert samkomulag við ítalska ríkið.[54] Skattgreiðendur sem vilja ekki styrkja trúfélög geta ákveðið að framlag þeirra renni til velferðarmála.[55]
Menning
[breyta | breyta frumkóða]Allt frá tímum Etrúra og Rómaveldis hefur framlag Ítalíu til heimsmenningarinnar verið gríðarlegt. Mikilvægi ítalskrar menningar hefur meðal annars stafað af því að þar var miðpunktur Rómaveldis, þar hefur páfinn, höfuð hins rómversk-kaþólska heims, haft aðsetur lengst af og þar kom endurreisnin upp, sem markaði þáttaskil milli miðalda og nýaldar. Ítalía er það land sem geymir flestar heimsminjar á Heimsminjaskrá UNESCO (41).
Á tímum Rómaveldis var latína opinbert tungumál, en á Ítalíuskaganum voru töluð mörg tungumál; rómönsk, púnversk, etrúsk og gallversk. Ítalska þróaðist út frá ýmsum latneskum mállýskum á miðöldum. Elstu merki um hana er að finna í textum frá 10. öld en hún var fyrst viðurkennd sem bókmenntamál með verkum rithöfunda á borð við Dante Alighieri, Giovanni Boccaccio og Francesco Petrarca á 13. og 14. öld.
Bókmenntir
[breyta | breyta frumkóða]Latínubókmenntir urðu til á Ítalíu með leikritun á latínu á 3. öld f.Kr.[56] Rómversk sagnaritun, heimspeki, ljóðlist, leikritun, ræðulist og sagnalist, hefur lengi haft mikil áhrif á bókmenntasögu heimsins með verkum eftir Pliníus eldri, Pliníus yngri, Virgil, Hóratíus, Propertíus, Óvidíus og Livíus, svo örfá dæmi séu tekin.
Notkun ítölsku hófst þegar skáld tóku að yrkja á alþýðumáli í stað latínu á 13. öld. Meðal þeirra fyrstu voru Frans frá Assisí[57] og Giacomo da Lentini sem er talinn hafa fundið upp sonnettuna.[58] Annað frægt ítölskuskáld var húmanistinn Francesco Petrarca sem orti sonnettur á ítölsku, en skrifaði annars flest sín helstu verk á latínu.
Á endurreisnartímanum orti Dante Alighieri Hinn guðdómlega gleðileik á ítölsku og sýndi þar með fram á að hægt væri að nota málið í löngu söguljóði um alvarleg efni. Hann festi þannig ítölskuna í sessi sem bókmenntamál, auk þess að finna upp þríhenduna. Annar rithöfundur á 14. öld, Giovanni Boccaccio, náði miklum vinsældum með sagnasafninu Tídægru. Niccolò Machiavelli ritaði Furstann á 16. öld og skömmu síðar orti Ludovico Ariosto riddarakvæðið Orlando furioso. Torquato Tasso orti sagnakvæðið Gerusalemme liberata um átök milli kristinna manna og múslima, seint á 16. öld. Sagnasöfn eftir Giovanni Straparola og Giambattista Basile urðu þekktustu ævintýrasöfn Evrópu í upphafi nýaldar. Aðrir þekktir ítalskir höfundar á 17. og 18. öld voru skáldið Giambattista Marino, vísindamaðurinn Galileo Galilei, heimspekingurinn Tommaso Campanella, líbrettistinn Metastasio og leikskáldið Carlo Goldoni.
Rómantíska stefnan náði vinsældum á Ítalíu í upphafi 19. aldar og fór saman við baráttuna fyrir sameiningu Ítalíu með verkum Vittorio Alfieri, Ugo Foscolo og Giacomo Leopardi. Sögulega skáldsagan I promessi sposi eftir Alessandro Manzoni hefur verið nefnd sem frægasta ítalska skáldsagan, en hún er almennt lesin í skólum.[59]
Seint á 19. öld kom raunsæið inn í ítalskar bókmenntir í formi verisma, en helstu forvígismenn hans voru Giovanni Verga og Luigi Capuana. Emilio Salgari gaf út röð vinsælla ævintýrabóka um indverska sjóræningjann Sandokan undir lok 19. aldar. Á sama tíma samdi Carlo Collodi hina frægu sögu Gosa (Pinocchio), sem er ein af mest þýddu barnabókum heims.[60] Um aldamótin 1900 var symbólismi vinsæl stefna með verkum Gabriele d'Annunzio og um 1911 kom listastefnan fútúrismi fram á Ítalíu, með skrifum Filippo Tommaso Marinetti, og hafði mikil áhrif á ítalska myndlist og ljóðlist.
Meðal þekktustu höfunda Ítalíu á 20. öld eru nóbelshöfundarnir Giosuè Carducci, Grazia Deledda, Luigi Pirandello, Salvatore Quasimodo, Eugenio Montale og Dario Fo; en auk þeirra má nefna Italo Calvino, Giuseppe Ungaretti, Carlo Levi, Alberto Moravia, Elsa Morante, Giuseppe Tomasi di Lampedusa, Natalia Ginzburg, Pier Paolo Pasolini, Umberto Eco og Oriana Fallaci. Meðal vinsælla höfunda á 21. öld má nefna Roberto Saviano, Elena Ferrante og Valerio Massimo Manfredi.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Carl Waldman; Catherine Mason (2006). Encyclopedia of European Peoples. Infobase Publishing. bls. 586. ISBN 978-1-4381-2918-1. Sótt 23. febrúar 2013.
- ↑ Lazenby, John Francis (4. febrúar 1998). Hannibal's War: A Military History of the Second Punic War. University of Oklahoma Press. bls. 29. ISBN 978-0-8061-3004-0 – gegnum Internet Archive. „Italy homeland of the Romans.“
- ↑ Maddison, Angus (20. september 2007). Contours of the World Economy 1-2030 AD: Essays in Macro-Economic History. OUP Oxford. ISBN 978-0-19-922721-1 – gegnum Google Books.
- ↑ Sée, Henri. „Modern Capitalism Its Origin and Evolution“ (PDF). University of Rennes. Batoche Books. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. október 2013. Sótt 29. ágúst 2013.
- ↑ Jepson, Tim (2012). National Geographic Traveler: Italy. National Geographic Books. ISBN 978-1-4262-0861-4.
- ↑ Bouchard, Norma; Ferme, Valerio (2013). Italy and the Mediterranean: Words, Sounds, and Images of the Post-Cold War Era. Palgrave Macmillan. ISBN 978-1-137-34346-8. Sótt 17. desember 2015.
- ↑ „Unification of Italy“. Library.thinkquest.org. 4. apríl 2003. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2009. Sótt 19. nóvember 2009.
- ↑ „The Italian Colonial Empire“. All Empires. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. febrúar 2012. Sótt 17. júní 2012. „At its peak, just before WWII, the Italian Empire comprehended the territories of present time Italy, Albania, Rhodes, Dodecanese, Libya, Ethiopia, Eritrea, the majority of Somalia and the little concession of Tientsin in China“
- ↑ Jon Rynn. „WHAT IS A GREAT POWER?“ (PDF). economicreconstruction.com. Afrit (PDF) af uppruna á 28. apríl 2017. Sótt 15. mars 2017.
- ↑ „IMF Advanced Economies List. World Economic Outlook, April 2016, p. 148“ (PDF). Afrit (PDF) af uppruna á 21. apríl 2016.
- ↑ The Economist Intelligence Unit's quality-of-life index Geymt 2 ágúst 2012 í Wayback Machine, Economist, 2005
- ↑ „The World Health Organization's ranking of the world's health systems“. Photius.com. Sótt 7. september 2015.
- ↑ Gabriele Abbondanza, Italy as a Regional Power: the African Context from National Unification to the Present Day (Rome: Aracne, 2016)
- ↑ "Operation Alba may be considered one of the most important instances in which Italy has acted as a regional power, taking the lead in executing a technically and politically coherent and determined strategy." See Federiga Bindi, Italy and the European Union (Washington, D.C.: Brookings Institution Press, 2011), p. 171.
- ↑ Canada Among Nations, 2004: Setting Priorities Straight. McGill-Queen's Press – MQUP. 17. janúar 2005. bls. 85. ISBN 978-0-7735-2836-9. Sótt 13. júní 2016. ("The United States is the sole world's superpower. France, Italy, Germany and the United Kingdom are great powers")
- ↑ Sterio, Milena (2013). The right to self-determination under international law : "selfistans", secession and the rule of the great powers. Milton Park, Abingdon, Oxon: Routledge. bls. xii (preface). ISBN 978-0-415-66818-7. Sótt 13. júní 2016. ("The great powers are super-sovereign states: an exclusive club of the most powerful states economically, militarily, politically and strategically. These states include veto-wielding members of the United Nations Security Council (United States, United Kingdom, France, China, and Russia), as well as economic powerhouses such as Germany, Italy and Japan.")
- ↑ Michael Barone (2. september 2010). „The essence of Italian culture and the challenge of the global age“. Council for Research in Values and philosophy. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. september 2012. Sótt 22. september 2012.
- ↑ Getið þið sagt mér hvernig dýralíf á Ítalíu er?Vísindavefurinn, skoðað 1. mars, 2021
- ↑ „Regioni italiane“ (ítalska). Sótt 30. apríl 2022.
- ↑ „Superficie e popolazione dati Eurostat“. Sótt 28. janúar 2021.
- ↑ „Causes of the Italian mass emigration“. ThinkQuest Library. 15. ágúst 1999. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. júlí 2009. Sótt 11. ágúst 2014.
- ↑ „Migrantes: gli italiani se ne vanno“. Sótt 3. júlí 2013.
- ↑ EUROSTAT. „Ageing characterises the demographic perspectives of the European societies – Issue number 72/2008“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 2. janúar 2009. Sótt 28. apríl 2009.
- ↑ „Cittadini Stranieri. Popolazione residente e bilancio demografico al 31 dicembre 2020 (dati provvisori)“. Sótt 30-7-2021.
- ↑ „Stranieri residenti al 31 dicembre“. Sótt 30-7-2021.
- ↑ „Immigrati, c'è un popolo di invisibili in Italia e sono più di 400 mila“. la Repubblica. Sótt 23. júní 2016.
- ↑ 27,0 27,1 „Legge 15 Dicembre 1999, n. 482 "Norme in materia di tutela delle minoranze linguistiche storiche" pubblicata nella Gazzetta Ufficiale n. 297 del 20 dicembre 1999“. Ítalska þingið. Afrit af uppruna á 12. maí 2015. Sótt 2. desember 2014.
- ↑ Statuto Speciale per il Trentino-Alto Adige, Art. 99
- ↑ Italian language Geymt 30 júlí 2015 í Wayback Machine Ethnologue.com
- ↑ „Eurobarometer – Europeans and their languages“ (485 KB). febrúar 2006. Afrit (PDF) af uppruna á 30. apríl 2011.
- ↑ Nationalencyklopedin "Världens 100 största språk 2007" The World's 100 Largest Languages in 2007
- ↑ Italian language Geymt 2 maí 2014 í Wayback Machine University of Leicester
- ↑ „UNESCO Atlas of the World's Languages in danger“. www.unesco.org (enska). Afrit af uppruna á 18. desember 2016. Sótt 2. janúar 2018.
- ↑ Italian language. 3. nóvember 2008. Afrit af uppruna á 29. nóvember 2009. Sótt 19. nóvember 2009.
- ↑ L.cost. 26 febbraio 1948, n. 4, Statuto speciale per la Valle d'Aosta
- ↑ L.cost. 26 febbraio 1948, n. 5, Statuto speciale per il Trentino-Alto Adige
- ↑ L. cost. 31 gennaio 1963, n. 1, Statuto speciale della Regione Friuli Venezia Giulia
- ↑ Maurizio Tani, Hvaða tungumál tala Ítalir?, Málfríður. Tímaritið samtaka tungumálakennara á Íslandi, 2 (2012), bls. 16-18 og http://malfridur.ismennt.is/vor2012/vol-28-01-16-18_mt.htm Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine
- ↑ „Ready for Ratification“. European Centre for Minority Issues. Afrit af uppruna á 3. janúar 2018.
- ↑ „Linguistic diversity among foreign citizens in Italy“. Tölfræðistofnun Ítalíu. 24. júlí 2014. Afrit af uppruna á 30. júlí 2014. Sótt 27. júlí 2014.
- ↑ „I cattolici tra presenza nel sociale e nuove domande alla politica – novembre 2017“ (PDF). Ipsos MORI. 17. nóvember 2017. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. janúar 2018.
- ↑ „Catholicism No Longer Italy's State Religion“. Sun Sentinel. 4. júní 1985. Afrit af uppruna á 20. október 2013. Sótt 7. september 2013.
- ↑ „The Global Catholic Population“. Pew Research Center's Religion & Public Life Project. 13. febrúar 2013.
- ↑ „Archived copy“. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. desember 2010. Sótt 5. febrúar 2016.
- ↑ „What is the Difference Between the Vatican City and the Holy See?“. 5. janúar 2021.
- ↑ Leustean, Lucian N. (2014). Eastern Christianity and Politics in the Twenty-First Century. Routledge. bls. 723. ISBN 978-0-415-68490-3.
- ↑ 2017 Ársskýrsla Votta Jehóva
- ↑ „Chiesa Evangelica Valdese – Unione delle chiese Metodiste e Valdesi (Waldensian Evangelical Church – Union of Waldensian and Methodist churches)“ (ítalska). Chiesa Evangelica Valdese – Unione delle chiese Metodiste e Valdesi (Waldensian Evangelical Church – Union of Waldensian and Methodist churches). Afrit af upprunalegu geymt þann 11. febrúar 2006. Sótt 30. maí 2011.
- ↑ „World Council of Churches – Evangelical Methodist Church in Italy“. World Council of Churches. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. júlí 2008. Sótt 30. október 2010.
- ↑ Dawidowicz, Lucy S. (1986). The war against the Jews, 1933–1945. New York: Bantam Books. ISBN 978-0-553-34302-1. p. 403
- ↑ „The Jewish Community of Italy (Unione delle Comunita Ebraiche Italiane)“. The European Jewish Congress. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. mars 2013. Sótt 25. ágúst 2014.
- ↑ „Eurispes, risultati del primo Rapporto di ricerca su "L'Induismo in Italia"“ (ítalska). Sótt 31. desember 2021.
- ↑ „NRI Sikhs in Italy“. Nriinternet.com. 15. nóvember 2004. Afrit af uppruna á 7. febrúar 2011. Sótt 30. október 2010.
- ↑ „Italy: Islam denied income tax revenue – Adnkronos Religion“. Adnkronos.com. 7. apríl 2003. Afrit af uppruna á 20. júní 2013. Sótt 2. júní 2013.
- ↑ Camera dei deputati Dossier BI0350 Geymt 27 september 2013 í Wayback Machine. Documenti.camera.it (10. mars 1998). Sótt 12. júlí 2013.
- ↑ Duckworth, George Eckel. The nature of Roman comedy: a study in popular entertainment. University of Oklahoma Press, 1994. p. 3. Web. 15 October 2011.
- ↑ Brand, Peter; Pertile, Lino, ritstjórar (1999). „2 – Poetry. Francis of Assisi (pp. 5ff.)“. The Cambridge History of Italian Literature. Cambridge University Press. ISBN 978-0-521-66622-0. Afrit af uppruna á 10. júní 2016. Sótt 31. desember 2015.
- ↑ Ernest Hatch Wilkins, The invention of the sonnet, and other studies in Italian literature (Rome: Edizioni di Storia e letteratura, 1959), 11–39
- ↑ Archibald Colquhoun. Manzoni and his Times. J.M. Dent & Sons, London, 1954.
- ↑ Giovanni Gasparini. La corsa di Pinocchio. Milano, Vita e Pensiero, 1997. p. 117. ISBN 88-343-4889-3